Enski boltinn

Can: Leikir gegn United eru öðruvísi

Emre Can á æfingasvæðinu.
Emre Can á æfingasvæðinu. Vísir/Getty
Emre Can segir að það sé alltaf sérstakt andrúmsloft þegar lið Liverpool og Manchester United mætast. Liðin mætast í ensku úrvalsdeildinni á mánudag.

Can hefur ekki fengið mörg tækifæri í liði Liverpool til þess en gæti komið inn í liðið þar sem bæði Adam Lallana og Georginio Wijnaldum eiga við meiðsli að stríða.

„Þetta er mjög mikilvægur leikur fyrir okkur. Ég held við þurfum að gleyma leikjunum sem við höfum spilað til þessa,“ sagði Þjóðverjinn og bætti við að gott gengi liðsins hingað til myndi að sjálfsögðu hjálpa þeim í leiknum á mánudag.

„Að sjálfsögðu verðum við að taka sjálfstraustið með okkur úr leikjunum, en leikir gegn Manchester United eru alltaf öðruvísi. Við erum með nógu mikið sjálfstraust til þess að segja að við ætlum okkur að vinna.“

Zlatan Ibrahimovic og Paul Pogba mæta Liverpool í fyrsta sinn frá því þeir komu til liðs við United og Can viðurkennir að þeir séu afar sterkir leikmenn.

„Þeir eru báðir mjög góðir leikmenn. En við höfum á sterku liði að skipa og ætlum okkur sigur.“

Þegar liðin mættust á Anfield í Evrópudeildinni í vor hafði Liverpool betur og unnu 2-0 sigur. Stemmningin á Anfield var mögnuð í þeim leik og verður eflaust ekki síðri á mánudag.

„Stuðningsmenn okkar eru frábærir og verða að sýna það gegn Manchester United. Þeir eru okkar tólfti maður og geta gert gæfumuninn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×