Enski boltinn

Gylfi: Bárum of mikla virðingu fyrir Arsenal

Gylfi um það bil að skora mark sitt gegn Arsenal í gær.
Gylfi um það bil að skora mark sitt gegn Arsenal í gær. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson segir í samtali við enska fjölmiðla að leikmenn Swansea hafi borið of mikla virðingu fyrir liði Arsenal í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í gær. Lokatölur urðu 3-2 fyrir Arsenal sem léku einum færri síðustu mínútur leiksins.

Gylfi átti góðan leik gegn Arsenal í gær og skoraði glæsilegt mark þegar hann minnkaði muninn í 2-1 í fyrri hálfleiknum. Theo Walcott hafði þá komið Arsenal í 2-0 með tveimur mörkum.

„Ég er vonsvikinn. Þetta var augljóslega spennandi knattspyrnuleikur. Við gáfumst ekki upp og hefðum getað stolið einhverju í lokin en það átti ekki að verða,“ sagði Gylfi sem lék sinn 100 leik fyrir Swanse í gær.

„Nýi knattspyrnustjórinn vildi að við værum áræðnir og mér fannst við vera það. En við sýndum þeim of mikla virðingu,“ bætti Gylfi Þór við.

Swansea er í fallsæti eftir átta umferðir og hefur aðeins unnið einn leik til þessa á tímabilinu.

„Eftir fyrsta markið fannst mér við spila betur og við fengum færi til að skora en þegar við skoðum leikinni í heild þá voru þetta sanngjörn úrslit."

„Strákarnir kunna vel að meta nýja þjálfarann og æfingarnar hafa verið erfiðar. Ég hef ekki áhyggjur af forminu. Við komum okkur í betra form ef eitthvað vantar uppá,“ sagði Gylfi Þór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×