Erlent

Tuttugu og einni stúlku sleppt úr haldi Boko Haram

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Stúlkunum var rænt af vígasamtökunum Boko Haram fyrir tveimur árum. 197 þeirra eru enn í haldi, eða látnar.
Stúlkunum var rænt af vígasamtökunum Boko Haram fyrir tveimur árum. 197 þeirra eru enn í haldi, eða látnar. vísir/epa
Tuttugu og ein stúlka úr þorpinu Chibok í Nígeríu, sem voru í hópi fleiri stúlkna sem vígasamtökin Boko Haram rændu fyrir tveimur árum, eru komnar aftur til fjölskyldna sinna. Stúlkunum var sleppt úr haldi fyrir helgi en nígerísk stjórnvöld hafa ekki viljað greina frá hvernig samið var um lausn stelpnanna.

Haldin var athöfn í Abuja, höfuðborg Nígeríu, til heiðurs stúlknanna um helgina, en enn eru alls 197 stúlkur í haldi samtakanna, eða látnar. Stjórnvöld í Nígeríu segja hins vegar að von sé á að fleiri stúlkum verði sleppt.

Stelpurnar þökkuðu fyrir að vera enn á lífi og sögðust hafa verið án drykkjar og matar í allt að fjörutíu daga. „Við bjuggumst aldrei við að þessi dagur myndi koma, en með hjálp guðs erum við lausar úr þrælahaldinu,” sagði ein þeirra við athöfnina um helgina.

Stjórnvöld neita því að hafa sleppt föngum, vígamönnum Boko Haram, í skiptum fyrir stúlkurnar, þrátt fyrir að forsetinn sjálfur, Muhammadu Buhari, hafi nýlega sagst reiðubúinn í slíkar viðræður við samtökin. Erlendir fréttamiðlar greina ýmist frá því að föngum hafi í raun og veru verið sleppt í skiptum fyrir stelpurnar á meðan aðrir segja að stjórnvöld hafi greitt hátt lausnargjald með aðstoð svissneskra stjórnvalda.

Boko Haram hefur síðastliðin ár háð blóðuga baráttu í norðurhluta Nígeríu. Þau eru í dag nátengd hryðjuverkasamtökunum ISIS en Boko Haram berjast fyrir sjálfstæðu ríki múslima í Nígeríu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×