Enski boltinn

Gylfi: Vonandi nær Bradley að snúa þessu við

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór í leik með Swansea.
Gylfi Þór í leik með Swansea. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson hefur fengið nýjan knattspyrnustjóra hjá Swansea en Ítalanum Francesco Guidolin var sagt upp störfum í gær og Bob Bradley, fyrrum þjálfari bandaríska landlsiðsins, ráðinn í hans stað.

„Mér líst ágætlega á hann en það er erfitt að segja mikið fyrr en maður hefur kynnst honum,“ sagði Gylfi en Swansea er nú í sautjánda sæti deildarinnar eftir sex leiki í röð án sigurs.

Gylfi ræddi eins og aðrir íslenskir landsliðsmenn við fjölmiðla á Laugardalsvelli í dag þar sem íslenska landsliðið æfði í hádeginu fyrir leik þess gegn Finnlandi á fimmtudagskvöld.

„Allir þeir sem ég hef rætt við tala mjög vel um hann og vonandi nær hann að snúa þessu við hjá okkur,“ sagði Gylfi enn fremur.

„Það er samt aldrei að vita hvort að það sé rétt ákvörðun að skipta um stjóra fyrr en eftir á. Það virkaði í fyrra [þegar Guidolin var ráðinn] og okkur gekk mjög vel í síðari hluta mótsins. Vonandi gerist það sama núna.“

Swansea hefur spilað gegn Liverpool, Chelsea, Leicester, Southampton og Manchester City síðustu vikurnar og mætir Arsenal í fyrsta leik eftir landsleikjafrí.

„Þetta hefur því verið nokkuð erfitt prógramm hjá okkur en að sama skapi höfum við ekki verið að spila góðan fótbolta. Svona er þetta stundum og vonandi náum við að laga þetta sem allra fyrst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×