Erlent

Flokkur Merkel beið sögulegan ósigur í Berlín

Atli Ísleifsson skrifar
Þetta er versta útkoma CDU í Berlín.
Þetta er versta útkoma CDU í Berlín. Vísir/AFP
Kristilegir demókratar (CDU), flokkur Angelu Merkel Þýskalandskanslara, beið sögulegan ósigur í kosningum til þings í sambandsríkinu Berlín í gær.

Þetta er versta útkomu flokksins í ríkinu í sögunni en CDU fékk aðeins tæp átján prósent atkvæða og er samsteypustjórn CDU og Sósíaldemókrata því fallin.

Sósíaldemókratar hlutu 22 prósent atkvæða og eru nú stærsti flokkurinn í Berlín. Flokkurinn hlaut þó sjö prósent minna fylgi en í síðustu kosningum.

Hægriflokkurinn Alternativ für Deutschland vann sigur í kosningunum, hlaut fjórtán prósent atkvæða, og kom nú mönnum inn á þing í Berlín í fyrsta sinn.

Þetta er annar ósigur CDU í sambandsþingkosningum síðasta hálfa mánuðinn, en Alternativ für Deutschland hlaut á dögunum fleiri atkvæði en CDU í kosningum í Mecklenburg-Vorpommern.

Alternativ für Deutschland hefur harðlega gagnrýnt stefnu Angelu Merkel í flóttamannamálum en í Berlín, þar sem tæpar fjórar milljónir manna búa, hafa málefni flóttafólks verið áberandi. Þá hafa yfirvöld verið gagnrýnd harðlega fyrir lélega samfélagsþjónustu, slæmt ástand á skólahúsnæði, lélegar samgöngur og húsnæðisskort.


Tengdar fréttir

Þjóðernissinnar stærri en Kristilegir demókratar

Alternative für Deutschland, flokkur þjóðernissinna í Þýskalandi, fékk betri kosningu en Kristilegir demókratar, flokkur kanslarans Angelu Merkel, í kosningum sambandsríkisins Mecklenburg-Vorpommern í gær, ef marka má útgönguspár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×