Erlent

Þjóðernissinnar stærri en Kristilegir demókratar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Flokkur Angelu Merkel fékk útreið.
Flokkur Angelu Merkel fékk útreið. Nordicphotos/AFP
Alternative für Deutschland, flokkur þjóðernissinna í Þýskalandi, fékk betri kosningu en Kristilegir demókratar, flokkur kanslarans Angelu Merkel, í kosningum sambandsríkisins Mecklenburg-Vorpommern í gær, ef marka má útgönguspár.

Búist er við því að AfD hafi fengið um 22 prósent atkvæða, flokkur jafnaðarmanna um þrjátíu prósent en Kristilegir demókratar tæp tuttugu prósent. Kristilegir demókratar hafa aldrei fengið jafnslæma kosningu í ríkinu.

Ríkið er heimaríki Merkel og velta þýskir fjölmiðlar því fyrir sér hvort þetta bendi til kosningasigurs AfD í þingkosningum sem fram eiga að fara á næsta ári.

Kristilegir demókratar hafa með Jafnaðarmannaflokknum farið með stjórntaumana í Mecklenburg-Vorpommern undanfarið kjörtímabil og var ekki búist við því að breyting yrði þar á.

Leif-Erik Holm, oddviti AfD í ríkinu, var kátur þegar hann talaði við þýska fjölmiðla í gær. „Kannski er þetta upphafið að endalokum kanslaratíðar Angelu Merkel,“ sagði hann. Holm byggði kosningabaráttu sína á andstöðu við flóttamannastefnu ríkisstjórnarinnar og telur hann að Þjóðverjar taki á móti of mörgum flóttamönnum. Það sé á kostnað hins almenna borgara. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×