Erlent

Flóttamannastefnu Merkel kennt um fylgistap

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Flokkur þjóðernissinna í Þýskalandi bar sigur úr býtum í kosningum í heimaríki Angelu Merkel Þýskalandskanslara.
Flokkur þjóðernissinna í Þýskalandi bar sigur úr býtum í kosningum í heimaríki Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Vísir/AFP
Bandamenn Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, hafa hvatt hana til þess að breyta um stefnu í málefnum flóttamanna eftir að flokkur þjóðernissinna fékk betri kosningu en Kristilegir demókratar.

Alternative für Deutschland, flokkur þjóðernissinna í Þýskalandi, fékk um 22 prósent atkvæða í kosningum í heimaríki Merkel, Mecklenburg-Vorpommern, í gær. Flokkur Merkel, Kristilegir demókratar, máttu sætta sig við 20 prósent atkvæða.

Um ein milljón flóttamanna kom til Þýskalands á síðasta ári, þar af fjölmargir eftir að ríkisstjórn Þýskalands, með Merkel í fararbroddi, ákvað að slaka á landamæraeftirliti.

Merkel segir sjálf augljóst að úrslit kosninganna snúist um málefni flóttamanna en að hún muni standa á sínu. Hefur hún hafnað öllum hugmyndum um að loka landamærum Þýskalands eða setja þak á fjölda flóttamanna sem fá að koma inn í landið.

Segja stjórmmálaskýrendur ytra að niðurstöðurnar kosningarinnar í heimaríki Merkel séu áfall fyrir hana og að stefna Alternative für Deutschland í málefnum flóttamanna og innflytjenda höfði sterklega til þeirra sem áhyggjur hafi af komu flóttamanna til Þýskalands.

Vinsældir Merkel hafa dvínað á landsvísu undanfarin misseri en þó eru um 45 prósent Þjóðverja ánægð með störf hennar. Næstu þingkosningar í Þýskalandi fara fram í september á næsta ári og hefur Merkel enn ekki gefið út hvort hún muni bjóða sig fram á ný.


Tengdar fréttir

Þjóðernissinnar stærri en Kristilegir demókratar

Alternative für Deutschland, flokkur þjóðernissinna í Þýskalandi, fékk betri kosningu en Kristilegir demókratar, flokkur kanslarans Angelu Merkel, í kosningum sambandsríkisins Mecklenburg-Vorpommern í gær, ef marka má útgönguspár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×