Erlent

Bílalestin var að flytja mat til tugþúsunda manna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bílalestin áður en hún lagði af stað í dag.
Bílalestin áður en hún lagði af stað í dag. mynd/rauði hálfmáninn
Bílalest Sameinuðu þjóðanna, sem var að flytja hjálpargögn til svæðis sem er á valdi uppreisnarmanna skammt frá Aleppó í Sýrlandi, varð fyrir loftárás í gær af hálfu sýrlenskra eða rússneskra herflugvéla.

Þrjátíu og einn bíll var í bílalestinni en flutningur hjálpargagnanna var samstarfsverkefni Sameinuðu þjóðanna og Rauða hálfmánans í Sýrlandi.

Verið var að tæma bílana þegar árásin var gerð en í bílunum voru meðal annars matvæli og lyf fyrir tugþúsundir manna sem fastir eru í þorpinu Urem al-Kubra skammt frá Aleppó. Að minnsta kosti tólf létust í árásinni en átján bílar urðu fyrir skotum sem og vöruhús Rauða hálfmánans á svæðinu.

Erindreki Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi Staffan de Mistura er afar ósáttur við árásina. Hann sagðist hneykslaður á árásinni enda væri ferð bílalestarinnar löngu ákveðin í samstarfi við sýrlensk stjórnvöld svo aðstoða mætti fólk sem er innlyksa á svæði uppreisnarmanna.

Þá sendi Alþjóða Rauði krossinn frá sér yfirlýsingu þar sem það er harmað að hjálparstarfsmenn hafi enn og aftur lent í árás í stríðinu í Sýrlandi.

Vopnahlé sem hófst í liðinni viku lauk í gær þegar sýrlenski stjórnarherinn lýsti því yfir að því væri lokið þar sem uppreisnarhópa hefðu ekki staðið við skilmála hlésins. Herinn telur að hóparnir hafi notað hléið til að vopnast og að þeir hafi brotið gegn því minnst þrjúhundruð sinnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×