Erlent

Mótmælt fyrir utan heimili Stanford-nauðgarans

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Brock Turner var nemandi í Stanford-háskóla. Hann nauðgaði meðvitundarlausri konu á bak við ruslagám á skólalóð háskólans.
Brock Turner var nemandi í Stanford-háskóla. Hann nauðgaði meðvitundarlausri konu á bak við ruslagám á skólalóð háskólans. vísir
Hópur mótmælenda kom í dag saman fyrir utan heimili Brocks Turner, sem sakfelldur var fyrir að hafa nauðgað skólasystur sinni í fyrra. Turner hlaut sex mánaða dóm en afplánaði aðeins helming refsitímans sökum góðrar hegðunar innan veggja fangelsisins. Hann var látinn laus úr fangelsi í gær.

Mótmælendurnir héldu á skiltum með slagorðum á borð við: „Geldum alla nauðgara“ og „Við skulum aldrei leyfa honum að gleyma því sem hann gerði“. Þá hafði orðið nauðgari verið krotað á stéttina fyrir utan heimili Turner og sumir mótmælendur báru á sér vopn, að því er ABC greinir frá.

Turner hefur þó enn ekki komið heim til sín, en hann er sagður dvelja á hóteli þessa dagana með móður sinni.

Sjá einnig:„Vegna þín fannst mér ég einskis virði“

Dómurinn sem Turner fékk í júní síðastliðnum vakti mikla reiði þar sem mörgum fannst hann í engu samræmi við alvarleika glæpsins sem hann framdi. Turner nauðgaði konunni, sem var rænulaus, á bak við ruslagám á skólalóð Stanford-háskólans. Saksóknari fór fram á sex ára fangelsi yfir Turner en hámarksrefsing fyrir glæpinn er fjórtán ára fangelsi. Dómarinn í málinu taldi sex mánaða fangelsi hins vegar hæfilega refsingu þar sem hann mat það sem svo að almenningi stafaði ekki hætta af Turner.

Síðastliðinn mánudag samþykkti ríkisþing Kaliforníu lagabreytingar sem kenndar eru við Stanford-nauðgunina en þeim er ætlað að koma í veg fyrir glufu í lögunum sem gerði dómaranum í málinu kleift að dæma Turner í fangelsi í svo stuttan tíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×