Erlent

Stanford-nauðgunin: Joe Biden segist ævareiður yfir niðurstöðunni í opnu bréfi til fórnarlambsins

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden, sagðist í dag ævareiður vegna nauðgunarmálsins í Stanford.

Málið hefur vakið gríðarlega athygli en gerandinn í málinu, Brock Turner, hlaut aðeins sex mánaða dóm fyrir að nauðga ungri, meðvitundarlausri konu fyrir aftan ruslagám. Hámarksrefsing fyrir glæpinn er fjórtán ár.

Konan, sem hefur ekki verið nafngreind, skrifaði bréf til nauðgara síns sem hefur vakið athygli enda sýnir hún í því fádæma styrk og skilar skömminni þangað sem hún á heima. Konan las bréfið upp fyrir Turner þegar refsing hans var ákveðin. Vísir hefur fjallað ítarlega um málið.

Nú hefur Biden ritað opið bréf til konunnar. Það var birt á Buzzfeed.

„Ég er fylltur óstjórnlegri reiði – bæði yfir því að þetta hafi hent þig og yfir því að menningin okkar sé enn svo brengluð að þú hafir verið sett í þá stöðu að þurfa að verja eigin verðleika,“ skrifaði Biden.

„Þetta hlýtur að hafa verið svo sárt að þurfa að endurlifa það sem hann gerði þér aftur. En þú gerðir það samt, í þeirri von að styrkur þinn myndi koma í veg fyrir að með sama hætti yrði brotið á einhverjum öðrum. Hugrekki þitt er svo mikið að maður stendur á öndinni.“

Biden hefur tjáð sig mikið í gegnum tíðina um kynferðisbrot í framhaldsskólum og talað gegn nauðgunarmenningunni sem hefur fengið að viðgangast þar, meðal ananrs á Óskarsverðlaunahátíðinni.

„Ég veit ekki hvað þú heitir en orð þín munu að eilífu vera brennimerkt á sálu minni. Menn og konur á öllum aldri ættu að vera skyldug til þess að lesa orðin þín,“ skrifaði Biden. „Orð sem ég vildi óska af öllu hjarta að þú hefðir aldrei þurft að skrifa.“


Tengdar fréttir

Stanford-nauðgarinn: „Ég gerði mistök, ég drakk of mikið“

Brock Turner, sem dæmdur var í sex mánaða fangelsi í liðinni viku fyrir að nauðga meðvitundarlausri konu á bak við ruslagám á skólalóð Stanford-háskóla í janúar í fyrra, virðist að litlu sem engu leyti taka ábyrgð á gjörðum sínum umrædda nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×