Erlent

Sérsveit forseta Tyrklands leyst upp

Birgir Olgeirsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Vísir/EPA
Sérsveit forseta Tyrklands verður leyst upp eftir að nærri 300 meðlimir úr henni voru handteknir eftir valdaránstilraunina í síðustu viku.

Forsætisráðherra Tyrklands, Binali Yildirim sagði við fréttamenn í Tyrklandi að það væri engin þörf á þessari sérsveit sem telur um 2.500 manns. Tyrknesk yfirvöld handsömuðu fyrr í dag frænda klerksins Fethullah Gulen sem er sakaður um að vera maðurinn á bak við valdaránstilraunina en hann sjálfur hefur staðfastlega neitað því.

Einn af aðstoðarmönnum Gulens hefur einnig verið handtekinn.

Forseti landsins, Recep Tayyip Erdogan, hefur staðið fyrir miklum hreinsunum á embættismannakerfi landsins í kjölfar valdaránstilraunarinnar. Þúsundir hafa ýmist verið reknir eða vikið úr starfi, aðrir hafa verið handteknir og bíða réttarhalda. Þá hafa deildarforsetar háskóla verið hvattir til að segja af sér og hefur fræðimönnum verið bannað að ferðast frá landinu.

Erdogan lýsti yfir neyðarástandi í landinu á miðvikudag sem gerir honum og ráðherrum kleift að fara fram hjá þinginu til að setja ný lög eða hefta réttindi og frelsi borgara.


Tengdar fréttir

Tæki dauðarefsingu fram yfir ESB-aðild

Erdogan Tyrklandsforseti virðist staðráðinn í að brjóta hreyfingu Fetúllas Gülen á bak aftur og kennir henni um valdaránstilraunina sem gerð var um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×