Enski boltinn

Framtíð Sakho hjá Liverpool í óvissu eftir að Klopp sendi hann heim

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mamadou Sakho lendir á Englandi í dag.
Mamadou Sakho lendir á Englandi í dag. vísir/getty
Framtíð franska miðvarðarins Mamadou Sakho hjá Liverpool er í óvissu eftir að hann var sendur heim úr æfingaferð liðsins í Bandaríkjunum.

Sakho kemur aftur til Englands í dag eftir að Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ákvað að binda endi á dvöl hans vestanhafs með liðinu.

Miðvörðurinn hefur verið í meðhöndlun vegna meiðsla sem gera það að verkum að hann getur ekki spilað fyrstu leiki nýrrar leiktíðar í ensku úrvalsdeildinni sem hefst 13. ágúst.

Liverpool Echo greinir þó frá því að það séu ekki bara meiðslin sem spili inn í heldur hefur viðhorf hans á æfingasvæði Liverpool í Bandaríkjunum ekki verið gott. Það varð til þess að hann var sendur rakleiðis heim.

Liverpool staðfesti við fréttamenn að Sakho væri á heimleið en neituðu að gefa upp ástæðu þess að miðvörðurinn myndi ekki taka frekari þátt í æfingaferðinni í Bandaríkjunum.

Sakho mun nú mæta í meðhöndlun á Melwood, æfingasvæði Liverpool, á meðan liðsfélagar hans klára Bandaríkjaferðina en þar á liðið leiki gegn Chelsea, AC Milan og Roma á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×