Erlent

Upptökutæki flugstjórnarklefans er fundið

Samúel Karl Ólason skrifar
Leit að flugvélinni hefur nú staðið yfir í mánuð.
Leit að flugvélinni hefur nú staðið yfir í mánuð. Vísir/EPA
Búið er að finna upptökutækið úr flugstjórnarklefa flugvélar EgyptAir sem fórst í Miðjarðarhafið fyrir mánuði síðan. Flugvélin var á leið frá París til Kaíró þegar hún hvarf af ratsjám og fórust 66 manns með henni. Ekki liggur fyrir hvers vegna flugvélin fórst.

Upptökutækið fannst með notkun fjarstýrðs kafbáts.

Upptökutækið er töluvert skemmt en samkvæmt Reuters fréttaveitunni fannst minnishluti tækisins, sem er mikilvægasti hluti þess. Nú er verið að flytja tækið til Alexandríu þar sem það rannsakendur bíða þess.

Airbus, framleiðendur flugvélarinnar, segja að flugritar hennar séu lykilatriði rannsóknarinnar og þeir geti varpað ljósi á það hvers vegna hún fórst. Með ritanum sem búið er að finna verður hægt að hlusta á samskipti flugmanna flugvélarinnar og mögulegar viðvörunarbjöllur.

Samkvæmt yfirvöldum Grikklands var flugvélinni beygt skyndilega til beggja átta og missti hún mikla hæð skömmu áður en hún hvarf af ratsjám. Hryðjuverk hefur ekki verið útilokað en engin samtök hafa lýst yfir ábyrgð á atvikinu.

Svo virðist sem að flugmenn flugvélarinnar hafi ekki sent út neyðarkall, en rannsóknargögn gefa í skyn að eldur hafi komið upp í flugvélinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×