Erlent

Líkamshluti, töskur og sæti úr flugvél EgyptAir finnast í Miðjarðarhafi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Einblínt er á það að finna flugrita vélarinnar svo komast megi að orsökum þess að flugvélin hrapaði.
Einblínt er á það að finna flugrita vélarinnar svo komast megi að orsökum þess að flugvélin hrapaði. Vísir/EPA
Varnarmálaráðherra Grikklands segir að leitaraðilar hafi fundið líkamshluta, sæti og töskur farþega úr flugi EgyptAir sem hrapaði í Miðjarðarhafið í gær.

Hlutirnir fundust rétt sunnan við þar sem sambandið við flugvélina rofnaði en fyrr í dag var greint frá því að egypski herinn hefði fundið brak og persónulega muni úr vélinni um 295 kílómetra undan ströndum Alexandríu-borgar í Egyptalandi.

Leitaraðilar einblína nú á það að finna flugrita vélarinnar, hina svokölluðu svörtu kassa, svo komast megi að því hvað hafi grandað vélinni. Ekkert hefur fengist staðfest um ástæður þess að vélin brotlenti. Leiddar hafa verið líkur að því að hryðjuverkamenn hafi grandað vélinni frekar en að um tæknilega bilun hafi verið að ræða.

Að finna flugritana gæti þó reynst þrautinni þyngri en miðað við þau gögn sem liggja fyrir telja rannsakendur að vélin hafa hrapað í sjóin nærri þeim stað sem egypski herinn fann brakið fyrr í dag. Mikið dýpi er á því svæði Miðjarðarhafsins líkt og meðfylgjandi mynd gefur til kynna.

Ólíklegt að sprengja hafi grandað vélinni

Greint hefur verið frá því að að flugvélinni hafi verið beygt skyndilega áður en hún hvarf af ratsjám og brotlenti. Fyrst hafi hún beygt í 90 gráður til hægri og svo í heilan hring í hina áttina.

Breskur sérfæðingur í flugmálum sagði í samtali við The Guardian að hinar skyndilegu stefnubreytingar vélarinnar bentu ekki til þess að sprengibúnaður hafi grandað vélinni, líklega væru þær af mannavöldum.

Airbus flugvél EgyptAir með flugnúmerið MS804 hvarf af ratsjám eftir um fjögurra tíma flug frá París í Frakklandi til Kaíró í Egyptalandi snemma á fimmtudag. Alls voru sextíu og sex innanborðs, þar af þrjátíu frá Egyptalandi og fimmtán franskir ríkisborgarar, þegar vélin brotlenti í Miðjarðarhafi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×