Erlent

Yfirvöld staðfesta að brak úr egypsku flugvélinni sé fundið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hernaðaryfirvöld í Egyptalandi staðfesta að brak úr flugvél Egypt Air hafi fundist undan ströndum Egyptalands.
Hernaðaryfirvöld í Egyptalandi staðfesta að brak úr flugvél Egypt Air hafi fundist undan ströndum Egyptalands. Vísir/EPA
Bæði egypsk hernaðaryfirvöld og fulltrúar EgyptAir hafa staðfest að brak sem fundist hefur í Miðjarðarhafi sé úr flugvél EgyptAir sem fórst í gær.

Talsmaður egypska hersins segir að brak og persónulegir munir farþega hafi fundist í Miðjarðahafi um 290 kílómetra undan ströndum borgarinnar Alexandríu í Egyptalandi.

Airbus flugvél EgyptAir með flugnúmerið MS804 hvarf af ratsjám eftir um fjögurra tíma flug frá París í Frakklandi til Kaíró í Egyptalandi snemma á fimmtudag. Alls voru sextíu og sex innanborðs, þar af þrjátíu frá Egyptalandi og fimmtán franskir ríkisborgarar, þegar vélin brotlenti í Miðjarðarhafi.

Ekkert hefur fengist staðfest um ástæður þess að vélin brotlenti. Leiddar hafa verið líkur að því að hryðjuverkamenn hafi grandað vélinni frekar en að um tæknilega bilun sé að ræða. 

Greint hefur verið frá því að að flugvélinni hafi verið beygt skyndilega áður en hún hvarf af ratsjám og brotlenti. Fyrst hafi hún beygt í 90 gráður til hægri og svo í heilan hring í hina áttina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×