Enski boltinn

Guidolin: Gylfi er fullkomin tía og ég vonast til að halda honum hjá Swansea

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði ellefu mörk fyrir Swansea.
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði ellefu mörk fyrir Swansea. vísirgetty
Francesco Guidolin, knattspyrnustjóri Swansea, vill ólmur halda Gylfa Þór Sigurðssyni hjá liðinu í sumar en átta sig á að áhuginn verður mikill á íslenska landsliðsmanninum.

Gylfi Þór spilaði frábærlega fyrir Svanina á seinni hluta móts og er ein lang stærsta ástæða þess að Swansea spilar í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð en liðið var í fallbaráttu framan af vetri.

Hafnfirðingurinn skoraði níu mörk eftir áramót og ellefu mörk í heildina, en hann sópaði svo að sér verðlaunum á lokahófi liðsins þar sem hann var kjörinn besti leikmaður Swansea að mati liðsfélaga sinna og stuðningsmanna.

„Ég svona svo sannarlega að Gylfi verði áfram hjá okkur. Hann er svo mikilvægur leikmaður fyrir okkur. Eins og ég hef sagt áður er hann fullkomin tía,“ er haft eftir Guidolin í enskum miðlum.

Gylfi Þór hefur vafalítið vakið athygli stærri liða með frammistöðu sinni á seinni hluta tímabilsins og í næsta mánuði verður hann í risastórum sýningarglugga með íslenska landsliðinu á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi.

„Ég er viss um að önnur lið hafa áhuga á Gylfa því hann spilaði svo vel en ég veit ekki hvað gerist í sumar. Samband okkar Gylfa er gott og þegar ég kom gat ég séð að hann er góður strákur,“ segir Francesco Guidolin.


Tengdar fréttir

Gylfi valinn bestur hjá Swansea

Gylfi Þór Sigurðsson sópaði til sín verðlaunum á lokahófi enska úrvalsdeildarliðsins Swansea City í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×