Erlent

Virðast hafa skotið flugskeyti af kafbáti

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Talsmenn varnarmálaráðuneytis Suður-Kóreu halda því fram að nágrönnum þeirra í norðri hafi tekist að skjóta flugskeyti af kafbáti undan ströndum Norður-Kóreu í dag.

Talsmennirnir sögðu í samtali við fjölmiðla í dag að skotið hafi átt sér stað skammt frá hafnarborginni Sinpo þar sem sambærilegar tilraunir hafa áður verið framkvæmdar - sem til þessa hafi þó verið árangurslausar. Talið er að flugskeytið sem skotið var í dag hafi ferðast um 30 kílómetra leið. Þeir treystu sér þó ekki til að staðfesta hvar skeytið lenti. Flugskeyti sem finna má í vopnabúrum annarra ríkja eru þó þekkt fyrir að geta flogið 300 kílómetra hið minnsta.

Sjá einnig: Óttast aðra kjarnorkuvopnatilraun

AP fréttastofan heldur því fram að reynist heimildir varnarmálaráðuneytisins réttar kunni þetta að vera til marks um uggvænlega þróun í hernaðarbrölti Norður-Kóreu sem færst hefur í aukana á síðustu misserum. Sé her landsins búinn að ná tökum á að skjóta flugskeytum af kafbátum gæti hann komið andstæðingum sínum að óvörum enda enginn hægðarleikur að fylgjast með ferðum kafbátanna neðansjávar.

Síðast reyndu Norður-Kóreumenn að skjóta flugskeyti af kafbáti þann 25. desember síðastliðinn en þær tilraunir eru sagðar hafa mistekist.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×