Erlent

Róttækir hægri menn sigra í fyrstu umferð forsetakosninga í Austurríki

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Norbert Höfer, frambjóðandi austurríska Frelsisflokksins sigraði í dag í fyrstu umferð forsetakosninga þar í landi. Hann hlaut 36,7 prósent atkvæða og var talsvert langt á undan næstu frambjóðendum. Úrslit kosninganna þykja vera merki um að kjósendur séu óánægðir með ríkisstjórn landsins sem í sitja hinir hefðbundu valdaflokkar landsins.

Alexander van Bellen, frambjóðandi Græningja lenti í öðru sæti með 19,7 prósent atkvæða og Irmgard Griss, frambjóðandi óháðra var í því þriðja. Frambjóðendur ríkisstjórnarflokkanna fengu lítið brautargengi og mun Höfer líklega keppa við van Bellen í seinni umferð kosninganna. Úrslitin þýða að í fyrsta sinn frá stríðslokum 1945 mun frambjóðandi Sósíaldemókrata eða Alþýðuflokksins ekki sitja í forsetastól.

Gríðarlegt flæði flóttamanna til Austurríkis á undanförnum misserum auk aukins atvinnuleysis í landinu hefur sett þrýsting á sitjandi ríkisstjórn Sósíaldemókrata og Alþýðuflokksins. Telka stjórnmálaskýrendur að niðurstaða fyrstu umferðar forsetakosninganna séu skýr skilaboð til valdaflokkanna tveggja en stuðningur við ríkisstjórn Werner Faymann hefur farið þverrandi.

Flokkur Höfer, Frelsisflokkurinn, leiðir í skoðanakönnunum til þingkosninga sem fara fram á næsta ári og er nú með um 30 prósent fylgi. Flokkurinn leggur áherslu á stemma stigu við flæði flóttamanna til landsins.

Forsetinn hefur ekki mikil formleg völd en Höfer, sem gengur gjarnan með byssu á sér, segir að verði hann kjörinn forseti muni hann hóta að reka ríkisstjórn Feyman nema hún taki harðar á innflytjendamálum. Mótframbjóðandi Höfer, van Bellen, segir þó að verði hann kjörinn muni hann neita að sverja leiðtoga Frelsisflokksins í embætti kanslara, sigri flokkurinn í væntanlegum þingkosningum.

Seinni umferð kosninganna fer fram í lok maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×