Enski boltinn

Loksins réttlæti fyrir hina 96: Stuðningsmenn Liverpool sýknaðir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Loksins.
Loksins. vísir/getty

Liverpool-stuðningsmennirnir 96 sem fórust í Hillsborough-slysinu 15. apríl 1989 dóu allir ólögmætum dauðsföllum vegna mikillar vanrækslu South Yorkshire-lögreglunnar sem sá um öryggigæslu á og í kringum leikvanginn. Dómur féll í Hillsborough-málinu í dag.

Fjölskyldur fórnarlambanna og margir aðrir hafa í rúm 27 ár barist fyrir sannleikanum en lögreglan sópaði mikið af sönnunargögnum um eigin vanrækslu undir teppið og kenndi stuðningsmönnunum um allt.

Kviðdómur bar upp úrskurð sinn í dag og voru sjö af níu sammála um að löreglan hefði ekki staðið undir ábyrgð sinni og þá er hluta sakarinnar einnig skellt á sjúkrabílaþjónustu South Yorkshire sem kemur ekki vel út úr dómnum.

Stuðningsmenn Liverpool hafa beðið lengi eftir þessum úrskurði en það var fyrir nokkrum árum að hafin var ný rannsókn á málinu sem leiddi í ljós að þeir sem báru ábyrgð á öryggi fólksins brugðust algjörlega og voru valdur að slysinu skelfilega sem slasaði 766 manns og sendi 96 í gröfina.

Kviðdómendur þurftu að svara fjórtán spurningum en þeir svöruðu nei, aðspurðir hvort stuðningsmennirnir hefðu hagað sér óskynsamlega og skapað hættu og einnig var starfslið Sheffield Wednesday sem mætti Liverpol þennan örlagaríka dag hreinsað af allri sakargift.

Lögreglan aftur á móti gerði herfileg mistök í undirbúningi fyrir leikinn og að opna hliðið sem varð til þess að stuðningsmennirnir krömdust og létu lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×