Erlent

Barkaskurðlæknirinn rekinn frá Karólínska

Bjarki Ármannsson skrifar
Paolo Macchiarini hefur talsvert verið til umfjöllunar vegna plastbarkaígræðslna sinna.
Paolo Macchiarini hefur talsvert verið til umfjöllunar vegna plastbarkaígræðslna sinna. Vísir/EPA
Ítalski barkaskurðlæknirinn Paolo Macchiarini, sem talsvert hefur verið til umfjöllunar vegna plastbarkaígræðslna sinna, hefur verið rekinn frá Karólínska háskólanum í Svíþjóð. Í tilkynningu frá skólanum segir að hegðun Macchiarini og störf hans hafi ekki verið samboðin starfsmanni stofnunarinnar.

Macchiarini þróaði barkaígræðslu sem felst í því að skipta út barka fólks með gervibarka úr plasti. Hann græddi plastbarka í átta sjúklinga en sex þeirra eru látnir í dag og fátt sem bendir til þess að aðgerðin hafi haft nokkur áhrif. 

Einnig hefur að undanförnu komið fram að Macchiarini birti vísvitandi rangar upplýsingar um aðgerðirnar í fræðiriti og prufaði þær aldrei á dýrum áður en þær voru framkvæmdar á mönnum.

Fyrsta plastbarkaígræðslan var framkvæmd á Andemariam Beyene, Erítreumanni sem stundaði nám við Háskóla Íslands þegar hann greindist með krabbamein í háldi. Tveir íslenskir læknar komu að aðgerðinni og voru meðal 28 meðhöfunda að greininni sem reyndist innihalda rangar upplýsingar, þeir Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson. Andemariam lést um tveimur og hálfu ári eftir aðgerðina.

Birgir Jakobsson landlæknir var forstjóri Karólínska sjúkrahússins þegar barkaígræðslan var framkvæmd á Andemariam árið 2011. Hann neitaði að framlengja ráðningu Macchiarini við sjúkrahúsið árið 2013 vegna slæms árangurs hans. Macchiarini starfaði þó áfram í rannsóknum við háskólann, þar til nú.


Tengdar fréttir

Rakalausar ásakanir gegn íslenskum læknum

Landspítalinn hefur nú lokið eigin rannsókn á aðkomu tveggja lækna, sem sætt hafa hörðum ásökunum í Svíþjóð vegna aðkomu þeirra að fyrstu gervibarkaígræðslu sem framkvæmd var í heiminum. Framkvæmdastjóri lækninga segir ásakanirnar ekki eiga við nein rök að styðjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×