Innlent

Rakalausar á­sakanir gegn ís­lenskum læknum

Una Sighvatsdóttir skrifar

Landspítalinn hefur nú lokið eigin rannsókn á aðkomu tveggja lækna, sem sætt hafa hörðum ásökunum í Svíþjóð vegna aðkomu þeirra að fyrstu gervibarkaígræðslu sem framkvæmd var í heiminum. Framkvæmdastjóri lækninga segir ásakanirnar ekki eiga við nein rök að styðjast.

Þeir Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson áttu milligöngu um að Erítreumaðurinn Andemariam Beyene gengist undir barkaígræðslu á Karolinska sjúkrahúsinu í Svíþjóð árið 2011. Aðgerðin var sú fyrsta sinnar tegundar og vakti heimsathygli, en Andemariam lést rúmum tveimur árum síðar og hefur skurðlæknirinn sem framkvæmdi aðgerðina verið rannsakaður í Svíþjóð vegna ásakana um vísindalegt misferli.

Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, segir að í ljósi þeirrar staðreyndar að sjúklingurinn lá á Landspítalanum bæði fyrir og eftir skurðaðgerðina hafi spítalinn séð sig knúinn til að ráðast í ítarlega rótargreiningu á málinu. Svona mál séu afar þungbær bæði sjúklingum og aðstandendum, en starfsfólki ekki síður.

„Þetta mál var mjög sérstakt að því leyti að tveir af okkar færustu og farsælustu læknum urðu fyrir mjög alvarlegum ásökunum, meðal annars í fjölmiðlum í Svíþjóð. En niðurstaðan var í stuttu máli sú að læknum spítalans og starfsfólki spítalans tókst að bjarga lífi þessa sjúklings og síðan í framhaldi, með samvinnu við aðra, að lengja líf hans umfram það sem búast mátti við."

Verklagsreglur vera bættar

Þetta er í 17 sinn sem svo kölluð rótargreining er framkvæmd á Landspítalanum, að sögn Ólafs til að bæta öryggismenningu spítalans. Greiningin tók um tvo mánuði og var framkvæmd af tveimur starfsmönnum, lækni og hjúkrunarfræðingi, sem setið hafa námskeið hjá sérfræðingum frá bresku heilbrigðisþjónustunni. Markmiðið er að greina alvarleg vandamál sem koma upp í heilbrigðiskerfinu og finna rót vandans.

Þótt engar athugasemdir séu gerðar við störf læknanna tveggja, og málið hafi því ekki frekari afleiðingar af hálfu Landspítalans, verður samt dreginn lærdómur af því að sögn Ólafs.

„Lærdómurinn í þessu tilfelli er að við þurfum að bæta verklagsreglur þegar sjúklingar eru sendir til útlanda og það má líka alltaf bæta skráningu. En þessar miklu ásakanir sem sérstaklega læknarnir urðu fyrir, þær eiga ekki við rök að styðjast hvað varðar meðferðina á Landspítalanum."


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×