Erlent

Fuglar og framhjáhald í bandarískum stjórnmálum

Birta Björnsdóttir skrifar
Forval Demókrataflokksins heldur áfram í þremur ríkjum Bandaríkjanna í dag. Hjá Repúblikönum þykir mörgun kosningabaráttan vera farin að færast fyrir neðan beltisstað þar sem nektarmyndir og ásakanir um framhjáhald ganga manna á milli.

Demókratar kjósa í dag á Hawaii, í Washington og Alaska. Bernie Sanders hefur enn ekki gefið upp vonina í baráttunni við Hillary Clinton, en róðurinn er þungur. Sem stendur hefur Clinton landað 1.691 kjörmanni af þeim 2.383 sem þarf til sigurs. Bernie er hins vegar aðeins með 949 kjörmenn.

Hvað sem kjörmönnum líður virðast einhverjir liðsmenn dýraríkisins vera á bandi Bernie. Þessi smáfugl flögraði á ræðupúlt Sanders í gær og var ákaft fagnað af stuðningsmönnum hans.

Kosningabarátta Repúblikana komin á lágt plan

Síðastliðinn þriðjudag birtist á samfélagsmiðlum nektarmynd af eiginkonu Trump, Melania, og því haldið fram að eiginkona Cruz væri betri valkostur en hún sem forsetafrú Bandaríkjanna. Yfir þessu bitust mótframbjóðendurnir á Twitter.

Í gær birti tímaritið The National Enquirer svo fregnir af meintu framhjáhaldi Ted Cruz, sem segist ekki þurfa að hugsa sig tvisvar um hvaðan þær sögusagnir séu komnar.

„The National Enquirer birti frétt. Frétt með aðeins einum heimildarmanni. Sá nefnist Roger Stone og það vill svo til að hann er pólitískur ráðgjafi Donald Trumo. Ég tek skýrt fram að þessi frétt er rusl. Þessar ásakanir eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Þetta er slúður, slúður sem kemur frá Donald Trump og liðsmönnum hans,“ sagði Ted Cruz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×