Erlent

Obama greinir frá tilnefningu nýs hæstaréttardómara klukkan 15

Atli Ísleifsson skrifar
Barack Obama Bandaríkjaforseti.
Barack Obama Bandaríkjaforseti. Nordicphotos/AFP
 

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur greint frá því að hann muni greina frá því hvern hann tilnefnir sem nýjan hæstaréttardómara klukkan 15 í dag.

„Ég hef tekið ákvörðun: Ég mun í dag tilkynna um þann sem ég tel sérstaklega hæfan til að eiga sæti í hæstarétti,“ sagði Obama í tilkynningu.

Nýr dómari mun taka sæti hins íhaldssama Antonin Scalia sem hafði átt sæti í réttinum frá 1986. Hann lést þann 13. febrúar síðastliðinn.

Í frétt Reuters segir að líklegast þykir að Sri Srinivasan eða Merrick Garland verði fyrir valinu, en þeir eiga báðir sæti í alríkisáfrýjunardómstólum.

Búist er við að öldungadeild Bandaríkjaþings muni berjast gegn skipun þess sem Obama tilnefnir þar sem Repúblikanar eru þar í meirihluta, en öldundadeildin þarf að staðfesta skipun nýs dómara.

Níu menn eiga sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna. Fjórir dómaranna sem nú sitja í réttinum þykja frjálslyndir í túlkunum og fjórir íhaldssamir og því er skipun níunda dómarans sérstaklega mikilvæg.


Tengdar fréttir

Obama hyggst tilnefna dómara í næstu viku

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hyggst tilnefna nýjan hæstaréttardómara í stað Antonin Scalia þegar öldungadeild þingsins snýr aftur til starfa á mánudag. Frá þessu greindi talsmaður forsetaembættisins, Eric Schultz, í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×