Erlent

Segja Finicum hafa verið myrtan af lögreglu

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölskylda LaVoy Finicum, sem skotinn var til bana af lögreglu í Oregon, segir að hann hafi verið skotinn í bakið og með hendurnar á lofti. Lögreglan segir hann hafa verið að teygja sig í byssu og Alríkislögregla Bandaríkjanna hefur birt myndband af atvikinu.

Finicum var talsmaður hóps vopnaðra manna sem höfðu lagt undir sig skrifstofur friðlands í Oregon. Hópurinn vildi að bandaríska ríkið gæfi heimamönnum landið og héldu þeir skrifstofunum í 26 daga áður en lögreglan handtók leiðtoga hópsins.

Handtökurnar fóru fram þegar leiðtogarnir voru á leið til nærliggjandi bæjar að ræða við heimamenn um aðgerðir sínar. Finicum var skotinn til bana og annar særðist í átökum við lögreglu. Fjórir menn halda enn til á friðlandinu.

Á myndbandinu sem FBI birti má sjá Finicum reyna að stinga lögregluna af á miklum hraða áður en hann keyrir út af. Hann sést stíga út úr bílnum með hendur á lofti en dregur hendurnar að líkama sínum og er skotinn til bana.

Lögreglan segir hann hafa verið að reyna að taka upp skammbyssu sem fannst í vasa hans.

Fjölskylda Finicum segir hins vegar að hann virðist einungis vera að reyna að halda jafnvægi í snjónum. Hann hafi ekki verið ógnandi.

Myndband af aðgerðum lögreglu. Atvikið sem um ræðir er á tíundu mínútu. Hægt á myndbandinu.

Tengdar fréttir

Ammon Bundy og félagar handteknir í Oregon

Til skotbardaga kom í nótt þegar Alríkislögreglan bandaríska réðst til atlögu gegn vopnuðum hópi manna sem hafa haft skrifstofur náttúruverndarstofnunar í Oregon á sínu valdi um nokkurra vikna skeið. Einn mannanna féll í átökunum og annar særðist en leiðtogi þeirra, Ammon Bundy, er nú í haldi lögreglu ásamt sex öðrum félögum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×