Tsai Ing-wen verður fyrsta konan til að gegna embætti forseta Taívan en hún og flokkur hennar unnu stórsigur í kosningum þar í landi sem lauk í dag.
Þegar búið var að telja um helming atkvæða varð ljóst að hennar helsti andstæðingur, Eric Hu, frambjóðandi stjórnarflokksins, gæti ekki siglt fram úr Tsai Ing og hefur hann nú viðurkennt ósigur.
Ástand efnahagsins Taívan hefur versnað að undanförnu þrátt fyrir aukin viðskiptatengsl við Kína og við það hefur óánægja með störf Ma Ying-jeou, sitjandi forseta, aukist.
Tsai Ing er fulltrúi sjálfstæðissinna og líklegt þykir að kjör hennar muni hafa áhrif á samband Kína og Taívan en núverandi forseti landsins hefur undanfarin misseri sóst eftir nánari tengslum við Kína. Yfirvöld þar í landi líta á Taívan sem hluta af Kína og viðurkenna ekki sjálfstæði ríkisins.
Tsai Ing-wen kjörin fyrsti kvenforseti Taívan
Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
