Erlent

Dómari kallaði fyrrverandi þingmann raðbarnaníðing

Birgir Olgeirsson skrifar
Dennis Hastert.
Dennis Hastert. Vísir/EPA
Alríkisdómari í Bandaríkjunum hefur dæmt Dennis Hastert til fimmtán mánaða fangelsisvistar. Við uppkvaðninguna kallaði dómarinn Hastert, sem er fyrrverandi þingmaður Repúblikana, raðbarnaníðing. Sjá frétt BBC um málið hér. 

Hastert sagði í réttarsal að hann skammast sín fyrir að hafa misnotað traust nemenda á áttunda áratug síðustu aldar.

Hastert var þingmaður Illinois-ríkis frá árinu 1987 til 2007. Hann er sá Repúblikani sem hefur setið hvað lengst í stóli forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og var á þeim tíma staðgengill forseta Bandaríkjanna. Margir af fyrrverandi félögum í Repúblikanaflokknum hans höfðu kallað eftir því að dómarinn myndi náða hann.

Í október síðastliðnum játaði hann að hafa brotið gegn bankalögum eftir að hann reyndi að borga manneskju 3,5 milljónir Bandaríkjadala fyrir að segja ekki frá brotum hans.

Saksóknarar segja Hastert hafa misnotað fimm drengi á meðan hann starfaði sem þjálfari við skóla í Yorkville, úthverfi í Chicago, á árunum 1965 til 1981.

Ekki var hægt að ákæra Hastert fyrir þau brot vegna þess að þau höfðu fyrnst.

Verjendur Hastert höfðu farið fram á að hann yrði ekki dæmdur til fangelsisvistar sökum slæmrar heilsu en Hastert er 74 ára gamall og notast við hjólastól.

Dómarinn í málinu, Thomas Durkin, sagði Hastert einnig þurfa að undirgangast meðferð fyrir kynferðisafbrotamenn og afplána tvö ár á skilorði eftir að losnar úr fangelsi. Auk þess þarf hann að greiða 250 þúsund dollara í sjóð til styrktar fórnarlamba kynferðisofbeldis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×