Fótbolti

Clattenburg dæmir tvo úrslitaleiki í maí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Clattenburg hefur verið frábær í Meistaradeildinni.
Mark Clattenburg hefur verið frábær í Meistaradeildinni. Vísir/Getty
Enski dómarinn Mark Clattenburg hefur átt mjög gott tímabil og hann er líka að uppskera nú í mánuði stóru leikjanna í fótboltanum.

Pierluigi Collina, yfirmaður dómaramála hjá UEFA, hefur ákveðið að Mark Clattenburg dæmi úrslitaleik Meistaradeildarinnar sem fer fram á San Siro í Mílanó 28. maí næstkomandi.

Madrídar-liðin Real og Atletico mætast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í annað skiptið á þremur árum.

Það verður þó ekki eini stórleikur kappans í mánuðinum því sjö dögum fyrr mun hann dæma bikarúrslitaleik Manchester United og Crystal Palace á Wembley.

Mark Clattenburg verður með þessu fyrsti dómarinn sem dæmir þessa tvo leiki á sama tímabilinu.

Mark Clattenburg er 41 árs gamall og dæmdi sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni árið 2004. Hann hefur verið alþjóðlegur dómari síðan 2007.

Mark Clattenburg var aðstoðarmaður á EM 2012, dæmdi úrslitaleik karla á Ólympíuleikunum í London 2012 og er einn af átján dómurum sem munu dæma á EM í Frakklandi í sumar.

Mark Clattenburg gæti því kannski fengið að dæma þriðja úrslitaleikinn fari hann alla leið á Evrópumótinu og enska landsliðið kemst ekki í úrslitaleikinn í París.

Hér gengur mikið á hjá Mark Clattenburg.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×