Erlent

Ban Ki-moon segir að nú sé nóg komið

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Enn ein fréttin af kynferðisbrotum friðargæslumanna leiddi til afsagnar hans.
Enn ein fréttin af kynferðisbrotum friðargæslumanna leiddi til afsagnar hans. vísir/epa
Babacar Gaye hefur sagt af sér sem yfirmaður friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna í Mið-Afríkulýðveldinu. Þetta gerði hann eftir að upp komst um enn frekari kynferðisbrot friðargæsluliða gagnvart íbúum landsins.

Það var Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sem krafðist þess að Gaye segði af sér.

„Ég get ekki lýst því með orðum hve miklum sálarkvölum, reiði og skömm ég hef fyllst við þessar endurteknu fréttir ár eftir ár af kynferðisbrotum og misnotkun af hálfu sveita Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Ban við fréttamenn í New York.

Fyrr í vikunni skýrðu mannréttindasamtökin Amnesty International frá því að friðargæslumaður á vegum SÞ hefði nauðgað tólf ára stúlku í höfuðborginni Bangui. Áður hefur verið skýrt frá víðtækum kynferðisbrotum friðargæslusveitanna í landinu.

Friðargæslusveitir voru sendar til Mið-Afríkulýðveldisins árið 2014 vegna borgarastyrjaldarinnar þar. Vargöldin í landinu jókst í mars 2013 þegar uppreisnarmenn náðu völdum í landinu. Tugþúsundir hafa flúið heimili sín í borgarastyrjöldinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×