Erlent

Sautján loftárásir frá mánudegi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Stríðið gegn Íslamska ríkinu kostar Bandaríkjamenn um milljarð króna dag hvern.
Stríðið gegn Íslamska ríkinu kostar Bandaríkjamenn um milljarð króna dag hvern. nordicphotos/apf
Bandaríkin og bandamenn þeirra í baráttunni gegn Íslamska ríkinu (ISIS) hafa staðið fyrir sautján loftárásum gegn Íslamska ríkinu frá því á mánudag.

Þrjár árásanna beindust gegn skotmörkum í sýrlenska bænum Tel Abyad sem stendur við landamæri Sýrlands og Tyrklands og hæfðu meðal annars vélbyssu og farartæki Íslamska ríkisins.

Hinar loftárásirnar, fjórtán talsins, beindust gegn skotmörkum víðs vegar um Írak. Meðal annars í borgunum Kírkúk, Mósúl, Ramadí og Sinjar. Þær árásir hæfðu meðal annars sveitir hermanna Íslamska ríkisins, vopnabúr og sprengjubyrgi.

Samhliða skýrslu Bandaríkjahers sem frá þessu greindi í gær, var greint frá því að meðalkostnaður á hverjum degi vegna stríðsins gegn Íslamska ríkinu nemi um níu milljónum Bandaríkjadala eða rúmum milljarði íslenskra króna.

Loftárásir gegn Íslamska ríkinu hafa hæft 6.278 skotmörk frá áttunda maí á þessu ári. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×