Erlent

Játningin sögð þvinguð fram

guðsteinn bjarnason skrifar
Andrei Babúshkin. Fulltrúi í rússneska mannréttindaráðinu heimsótti Dadajev í fangelsið.
Andrei Babúshkin. Fulltrúi í rússneska mannréttindaráðinu heimsótti Dadajev í fangelsið. nordicphotos/AFP

Zaur Dadajev, fyrrverandi lögreglumaður sem játaði á sig morðið á stjórnarandstæðingnum Boris Nemtsov, gerði það að öllum líkindum eftir að hafa sætt pyntingum.

Þetta fullyrðir Andrei Babúshkin, sem á sæti í mannréttindaráði Rússlands. Hann segir Dadajev hafa sagt sér að hann hafi verið tvo daga í handjárnum með poka yfir höfði sér, auk þess sem hann hafi fengið raflost.

Babúshkin heimsótti Dadajev í fangelsið á þriðjudaginn. Hann segir fjölda sára á líkama Dadajevs benda til þess að játningin hafi verið fengin fram með pyntingum.

Dadajev er frá Tsjetsjeníu, rétt eins og frændi hans, Shagid Gúbasjev, sem einnig situr í fangelsi grunaður um morðið á Nemtsov. Þrír aðrir menn hafa einnig verið í fangelsi í tengslum við rannsókn á morðinu.

Boris Nemtsov hafði um árabil verið einn helsti gagnrýnandi Vladimírs Pútíns forseta. Hann var myrtur á göngu í Moskvu, rétt hjá Kreml, í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×