Erlent

Segir kjarnorkukapphlaup vera yfirvofandi

guðsteinn bjarnason skrifar
Benjamín Netanjahú varar bandaríska þingmenn við því að gera samninga við Íran um kjarnorkumál.
Benjamín Netanjahú varar bandaríska þingmenn við því að gera samninga við Íran um kjarnorkumál. fréttablaðið/EPA
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hóf ræðu sína á Bandaríkjaþingi í gær með því að segja að sér þætti leitt hve umdeild hún hafi orðið. Hann hafi alls ekki ætlað sér að vera „pólitískur“.

Síðan þakkaði hann Barack Obama Bandaríkjaforseta fyrir allt það „sem hann hefur gert fyrir Ísrael“.

Meginefni ræðunnar fór þó í að reyna að útskýra fyrir bandarískum þingmönnum hve mikil mistök það yrðu ef Bandaríkin gerðu samkomulag við Íran um kjarnorkumál.

„Þessi samningur mun ekki gera Íran að betra landi, heldur verra,“ sagði hann og fullyrti að í kjölfarið muni hefjast kjarnorkukapphlaup í Mið-Austurlöndum.

Hann talaði í tæpa klukkustund og hlaut langvarandi lófaklapp frá þingheimi þegar hann lauk máli sínu.

Tugir þingmanna voru fjarverandi, flestir þeirra demókratar, en aðstoðarmenn þingmanna voru hvattir til þess að setjast í auð sæti þannig að Netanjahú þyrfti ekki að horfa yfir hálftóman þingsal. Obama forseti mætti ekki heldur.

Þetta mun vera í þriðja sinn sem Netanjahú ávarpar Bandaríkjaþing, en til þessa hafði Winston Churchill, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, verið eini erlendi þjóðarleiðtoginn sem hafði orðið þess heiðurs aðnjótandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×