Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) segir það fráleitt að umdeild tillaga borgarstjórnar Reykjavíkur um viðskiptaþvinganir gagnvart Ísrael verði lögð fram aftur í breyttri mynd. Samtökin segjast hafa fundið verulega fyrir áhrifum þess að tillagan var samþykkt í síðustu viku og telja að verði hún lögð fram á ný verði það eingöngu til þess fallið að gera illt verra.
Í tilkynningu frá stjórn SAF segir að frá því að borgarstjórn samþykkti viðskiptaþvinganirnar hafi ferðamenn hætt við ferðir til landsins, hatursfullir póstar borist fyrirtækjum innan samtakanna og umræða á samfélagsmiðlum verið „ófögur.“
„Íslensk ferðaþjónusta byggir að miklu leyti á því að orðspor landsins er gott og ímyndin jákvæð,“ segir í tilkynningunni. „Því hefur neikvæð umræða um Ísland og Reykjavík fljótt áhrif á ferðaþjónustuna með þeim hætti sem orðið hefur. Ljóst er að umheimurinn telur að tillagan sem samþykkt var í borgarstjórn hljóti að vera stefna stjórnvalda á Íslandi enda eiga flestir því ekki að venjast að borgir hafi aðra stefnu í utanríkisviðskiptamálum heldur en viðkomandi ríki.“

