Enski boltinn

Monk skilur ákvörðun Swansea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Garry Monk er ekki í fýlu út í forráðamenn Swansea sem sögðu honum upp störfum í síðustu viku í kjölfar slæms gengis í upphafi tímabilsins.

Monk er aðeins 36 ára og vonast til þess að komast aftur í þjálfun sem allra fyrst. Undir hans stjórn varð Swansea í áttunda sæti ensku deildarinnar í vor en það er besti árangur félagsins frá upphafi.

Sjá einnig: Monk rekinn frá Swansea

„Ég skil ákvörðun hans [Huw Jenkins, stjórnarformanns] algjörlega. Auðvitað var þetta erfið ákvörðun. Mér fannst að við gætum snúið gengi okkar við og höfðum við öll tól til þess.“

„Ég hefði viljað fá tíma og tækifæri til að koma okkur á beinu brautina en ég er afar þakklátur fyrir að hafa fengið að starfa í stærstu og erfiðustu deild heims. Heilt yfir gekk það vel.“

Sjá einnig: Vonandi ekki svanasöngur Swansea-liðsins

Monk var ráðinn í byrjun febrúar 2014 eftir að Michael Laudrup var rekinn. Swansea var aðeins tveimur stigum frá fallsæti en bjargaði sér frá falli um vorið. Monk, sem hafði áður verið fyrirliði liðsins, var verðlaunaður með þriggja ára samningi.

„Ekkert annað félag hefði gefið fyrirliða félagsins þetta tækifæri í þessari stöðu. Þeir voru hugrakkir og eiga hrós skilið fyrir það. Ég hafði fulla trú á mér og tel mig nú tilbúinn í næsta verkefni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×