Enski boltinn

Vonandi ekki svanasöngur Swansea-liðins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Svekkjandi tap á móti Liverpool um helgina þýðir að uppskeran úr síðustu fjórum leikjum hjá Swansea City er aðeins eitt stig. Gylfi Þór Sigurðsson og félagar eru því á leiðinni í harða fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni ef svo heldur fram sem horfir.

Svanirnir frá Wales unnu 2-1 sigur á Man­chester United í lok ágúst og voru þá með átta stig í fjórða sæti deildarinnar. Síðan þá hefur liðið aðeins unnið einu sinni í síðustu tíu deildarleikjum sínum og er það aðeins fjórum stigum frá fallsæti.

Gylfi raðaði inn stoðsendingum

Staðan var allt önnur fyrir ári þegar Swansea sat í sjöunda sæti deildarinnar og Gylfi Þór Sigurðsson var í toppbaráttu við Chelsea-manninn Cesc Fabregas á stoðsendingalistanum.

Það eru bara tvö lið sem hafa „hrunið“ meira í töflunni frá því á sama tíma í fyrra, Englandsmeistarar Chelsea og Newcastle United. Swansea og Southampton eru bæði sjö sætum neðar en þeir voru 1. desember í fyrra.

Grafík: Fréttablaðið/Garðar. Myndir: Vísir/Getty
Munur á gengi liðsins kristallast í tölfræði Gylfa sem var búinn að leggja upp átta mörk á þessum tíma í fyrra en hefur aðeins gefið eina stoðsendingu í fyrstu þrettán leikjum liðsins í ár.

Eina stoðsending Gylfa kom á móti Manchester United í síðasta leik fyrir sögulegt landsleikjahlé þar sem hann hjálpaði íslenska karlalandsliðinu að komast inn á sitt fyrsta stórmót.

Gylfi kom að marki á 110 mínútna fresti á fyrstu sextán vikum tímabilsins í fyrra en hefur aðeins komið að marki á 350 mínútna fresti á þessari leiktíð.

Vísir/Getty
Jafnmörg spjöld og mörk

Það að Gylfi sé með jafnmörg gul spjöld (3) og sköpuð mörk (3) á þessu tímabili er tölfræði sem knattspyrnuáhugafólk á Íslandi hefur ekki séð mikið af á síðustu árum.

Auðvitað hefur þetta mikil áhrif á markaskor Swansea-liðsins enda kom Gylfi að 10 af fyrstu 17 mörkum Swansea á síðasta tímabili eða 59 prósent markanna.

Garry Monk, knattspyrnustjóri Swansea, hrósaði sínum mönnum eftir Liverpool-leikinn og talaði um ósanngjörn úrslit eftir leikinn. Það má deila um hversu vel liðið spilaði en niðurstaðan var á svipuðum nótum og í leikjunum á undan.

Sjá einnig: Swansea tók útskýringar Gylfa gildar

Gylfi, sem byrjaði á bekknum í leiknum á undan, kláraði nú allar 90 mínúturnar en tókst ekki frekar en félögum hans að búa til mark.

Gylfi hefur nú ekki lagt upp mark í tíu leikjum í röð og mörkin tvö sem hann hefur skorað á þeim tíma hafa komið úr vítaspyrnu og beint úr aukaspyrnu.

Vísir/Getty
Skoraði í eina sigurleiknum

Markið sem hann skoraði á móti Aston Villa var glæsilegt og kom í eina sigurleik liðsins í september, október og nóvembermánuði.

Það reynir heldur betur á Gylfa Þór og félaga í næstu tveimur leikjum sem eru á móti tveimur efstu liðum deildarinnar, Leicester City og Manchester City. Næsti leikur á móti liði sem er núna neðar í töflunni er ekki fyrr en á nýju ári (Sunder­land, 12. janúar).

Monk hefur ekki áhyggjur af fallbaráttu en óbreytt ástand þýðir bara vandræði og mögulegan svanasöng í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×