Enski boltinn

Man. City með fjóra af fimm markahæstu leikmönnum ársins 2014

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Yaya Touré, Wilfried Bony, Sergio Agüero og Edin Dzeko eru allir markaskorarar.
Yaya Touré, Wilfried Bony, Sergio Agüero og Edin Dzeko eru allir markaskorarar. vísir/getty
Það hefur ekki gengið illa hjá Manchester City að skora mörk í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta undanfarin misseri. Á síðasta ári var liðið með þrjá af fimm markahæstu leikmönnum úrvalsdeildarinnar, ef miðað er við 1. janúar til 31. desember.

Argentínumaðurinn Sergio Agüero var í öðru sæti með 18 mörk, Fílabeinsstrendingurinn Yaya Touré í þriðja sæti með 17 mörk og Bosníumaúrinn Edin Dzeko í fimmta sæti með 14 mörk.

Eini maðurinn sem skoraði meira en Agüero var annar Fílabeinsstrendingur, Wilfried Bony, leikmaður velska liðsins Swansea. Hann skoraði 20 mörk í úrvalsdeildinni á árinu 2014.

Eins og kom fram í gær festi Manchester City endanlega kaup á Bony og borgar Swansea 25 milljónir punda fyrir leikmanninn. Sú upphæð getur hækkað upp í 28 milljónir punda með árangurstengdum greiðslum.

Englandsmeistararnir eru búnir að skora 45 mörk í fyrstu 21 leik tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni og ættu að geta bætt við fleiri mörkum með kvartett í liðinu sem skoraði samtals 69 mörk á síðasta ári.

Wilfried Bony spilar ekki sinn fyrsta leik fyrir Manchester City fyrr en í febrúar, en hann er staddur í Miðbaugs-Gíneu þar sem Afríkukeppnin í fótbolta er að hefjast.

Mörk í úrvalsdeildinni á árinu 2014:

Wilfried Bony, Swansea - 20

Sergio Agüero, Man. City - 18

Yaya Touré, Man. City - 17

Wayne Rooney, Man. Utd - 16

Edin Dzeko, Man. City - 14




Fleiri fréttir

Sjá meira


×