Sigmar segir drenginn hafa verið sárkvalinn og fékk morfín til að lina þjáningarnar. Eftir langa bið á bráðamóttökunni þá fékk drengurinn að fara heim en foreldranna beið fimm þúsund króna sekt fyrir að greiða ekki í stöðumæli.
„Júlíana hafði sýnt af sér vítavert gáleysi og ekki haft fyrir því að láta organdi drenginn, með annars stigs bruna, hinkra í bílstólnum á meðan hún borgaði í mælinn. Auðvitað blasir það við að sömu reglur eiga að gilda um stöðumælasektir við neyðarmóttöku sjúkrahúss og við húsnæði eftirlaunasjóðs félags íslenskra atvinnuflugmanna í Borgartúni 19. Okkur þótti vel sloppið að borga einn fimmara enda með ólíkindum að refsing fyrir svona alvarleg brot sé ekki í það minnsta þriggja mánaða samfélagsþjónusta,“ segir Sigmar á Facebook.
Hann játar auk þess ítrekuð stöðubrot við Landspítalann.
„Við lærum ekki af reynslunni. Þegar við fórum með hraði á fæðingardeildina til að koma Krumma í heiminn lögðum við um miðja nótt í bílastæði þar fyrir utan. Við borguðum ekki í mælinn. Við gerum okkur grein fyrir því núna að þetta var siðleysi og þær afsakanir okkar að við höfum haft um annað að hugsa í miðjum hríðum halda auðvitað ekki vatninu sem Júlla hafði þá misst. Í asnaskap mínum gleymdi ég svo að borga þegar Júlla var komin með tíu í útvíkkun. Þegar ég hélt á drengnum í fyrsta sinn, eftir níu mánaða bið, þaut um kollinn á mér sú hugsun að honum að vonandi yrði hann yfirmaður bílastæðasjóðs í fyllingu tímans. Enda fátt göfugra en að spígspora í einkennisbúningi, með skrifblokk og myndavél, og sekta foreldra á vökudeild, aðstandendur fárveikra sjúklinga og svo að sjálfsögðu mæðurnar sem borga ekki í mælinn þegar þær liggja sultuslakar á meðan barninu er komið í heiminn með sogklukku. Réttlætinu þarf jú að framfylgja.“
Og Sigmar heldur svo meinhæðninni þegar hann lýkur þessum skrifum á Facebook með eftirfarandi orðum:
„Okkur foreldrum Krumma þætti þetta allt voða leiðinlegt ef við værum ekki svona forhertir og siðlausir brotamenn. Í okkar huga hefur drengurinn nú kostað okkur háar fjárhæðir fyrir þá ósvinnu að fæðast og fá brunasár á hönd og til að framfylgja réttlætinu, í anda bílastæðasjóðs, höfum við ákveðið að draga þetta af fermingarpeningunum hans.“