Innlent

Hönnunarkeppni um nýbyggingu Landsbanka frestað

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hönnunarkeppni fyrir fyrirhugaða nýbyggingu Landsbankans í miðbæ Reykjavíkur hefur verið frestað. Keppnin átti að hefjast síðar í þessum mánuði en hefur verið frestað meðal annars til að fara yfir sjónarmið sem komið hafa fram á síðustu vikum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu Landsbankans.

Gustað hefur um fyrirætlanir Landsbankans varðandi nýbyggingu í miðbænum en til stendur að byggja 16 þúsund fermetra byggingu við Reykjavíkurhöfn. Kostnaður við byggingu nýja hússins er áætlaður um átta milljarðar króna en gert er ráð fyrir að fjárfestingin borgi sig upp á um tíu árum frá því að húsið er tekið í notkun. Margir hafa lýst sig andsnúna þeim fyrirætlunum sem áætlað er að muni kosta skattgreiðendur um 8 milljarða króna. Þeirra á meðal eru sjónvarpsmaðurinn Ómar Ragnarsson og stjórnarþingmennirnir Elín Hirst og Vigdís Hauksdóttir.

Markmiðið með hönnunarkeppninni var „að kalla fram metnaðarfullar hugmyndir um vandaða byggingu sem fellur vel að umhverfi sínu og styrki miðbæ Reykjavíkur.“ Átti verkinu að ljúka árið 2019. Keppnin er haldin í samvinnu við Arkitektafélag Íslands en öllum verður gefinn kostur á að senda inn tillögur.

Hvenær keppnin hefst er óljóst enn sem komið er. „Nánar verður gerð grein fyrir framhaldinu opinberlega þegar frekari ákvarðanir liggja fyrir,“ segir í tilkynningu Landsbankans.


Tengdar fréttir

Landsbankinn greiðir 24 milljarða í arð

Stjórn Landsbanka Íslands mun leggja það til við aðalfund bankans að 24 milljarðar verði greiddir í arð á þessu ári. Samanlagðar arðgreiðslur vegna síðustu þriggja rekstrarára munu því nema um 53,5 milljörðum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×