Erlent

Foreldrar drengsins sem lést vilja ekki að árásarmaðurinn hljóti dauðadóm

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Fjölskylda drengsins, Richards-fjölskyldan, minntust hans á fimmtudag.
Fjölskylda drengsins, Richards-fjölskyldan, minntust hans á fimmtudag. vísir/ap
Foreldrar átta ára drengs sem lést í sprengjuárásinni í Boston-maraþoninu fyrir tveimur árum eru mótfallnir því að árásarmaðurinn hljóti dauðarefsingu. Óska þeir þess að hann hljóti lífstíðardóm, án möguleika á að verða látinn laus og með því skilyrði að hann geti ekki áfrýjað málinu. Vilja foreldrarnir að málinu ljúki sem fyrst svo þau geti haldið áfram lífi sínu áfram.

Dauðadómur leiði til áfrýjunar

Þetta kemur fram í bréfi sem fjölskyldan sendi dómsmálaráðuneytinu í dag. Þau segjast þó ekki leggjast alfarið gegn því að árásarmaðurinn, Dzhokhar Tsarnaev, hljóti dauðarefsingu en telja hana til þess fallna að draga málið enn meira á langinn. Verjandi hans muni áfrýja slíkri refsingu.

„Um leið og hinn seki hverfur úr dagblöðum okkar og sjónvarpsskjám munum við geta haldið áfram að byggja upp líf okkar og fjölskyldu,” segir í yfirlýsingu fjölskyldunnar. Sjö ára dóttir þeirra missti annan fótlegginn í sprengingunni, móðirin missti sjón á hægra auga og faðirinn særðist á hné.

Ræðst á næstu dögum hvort hann verði dæmdur til dauða

Dzhokhar Tsarnaev var í síðustu viku fundinn sekur í öllum þrjátíu ákæruliðum. Ný vitni verða kölluð fyrir kviðdóminn og verður svo ákveðið hvort hann verði dæmdur til dauða eða í lífstíðarfangelsi. Til að Tsarnaev hljóti dauðarefsingu þarf úrskurður kviðdómenda að vera samhljóma. Verjendur upplýstu við upphaf réttarhaldanna að Tsarnaev hefði tekið þátt í árásinni og fóru því ekki fram á sýknu. Leituðust þeir við að færa sönnur á að hann hefði ekki tekið þátt í skipulagningu árásarinnar og þannig reynt að komast hjá dauðarefsingu.

Dómarar grétu

Ákæruvaldið fór fram á dauðadóm og byggði málflutning sinn á hrottalegum og grafískum lýsingum á sárum drengsins og 23 ára pilts sem einnig týndi lífi í árásinni. Sýndar voru fataleifar drengsins og myndir af fjölskyldunni er hún stóð við endalínu maraþonsins, rétt áður en sprengjan sprakk. Svo hrottalegar voru lýsingarnar að nokkrir kviðdómara í málinu felldu tár við málflutninginn.


Tengdar fréttir

Dómarar felldu tár við málflutninginn

Saksóknarar hafa lokið málflutningi sínum yfir manninum sem sakaður er um að hafa átt aðild að sprengjuárásinni í Boston-maraþoninu

Fara ekki fram á sýknu yfir Tsarnaev

Verjendur Dzhokhar Tsarnaev, grunaðs sprengjumanns í Boston-maraþoninu, kölluðu einungis til fjögur vitni á meðan ákæruvaldið kallaði til 92 vitni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×