Enski boltinn

Ranieri: Vissi að ég yrði rekinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Claudio Ranieri hefur komið manna mest á óvart með lið sitt, Leicester, sem trónir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Liðið mætir í kvöld Englandsmeisturum Chelsea sem Ranieri þjálfaði á sínum tíma. Hann var þó rekinn árið 2004 og stuttu síðar var Jose Mourinho, sem er nú stjóri Chelsea, ráðinn.

Ranieri segist hafa gert sér grein fyrir því að hann yrði rekinn um leið og hann frétti af því að Rússinn Roman Abramovich hefði keypt félagið árið 2003.

„Framkvæmdastjórinn [Trevor Birch] sagði mér að það væri kominn nýr eigandi. Ég sagði að við tveir myndum fara fyrstir heim af öllum,“ sagði Ranieri við enska fjölmiðla.

„Það er eðlilegt að nýr eigandi vilji koma að sínu fólki. Ef nýr eigandi vill breyta einhverju er það eðlilegt.“

„Hann vildi fá Sven Göran Eriksson í júlí [2003] sem var þá landsliðsþjálfari Englands. Það reyndist ekki mögulegt. Hann sagði „OK. Við skulum byrja og sjá hvað við getum keypt“,“ bætti Ranieri við.

Ranieri fékk eitt ár til viðbótar með Chelsea og náði góðum árangri. Chelsea endaði í öðru sæti deildarinnar en það dugði ekki til að bjarga starfi Ranieri og var Mourinho ráðinn um vorið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×