Innlent

ISNIC snýr vörn í sókn gegn ISIS með hjálp Twitter

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jens Pétur Jensen segir að ISNIC sé í tilvistarkreppu vegna ISIS.
Jens Pétur Jensen segir að ISNIC sé í tilvistarkreppu vegna ISIS. Samsett
ISNIC, fyrirtækið sem sér um skráningu léna undir landsléninu.is, hefur snúið vörn í sókn gagnvart ISIS. Á Twitter-síðu fyrirtækisins er fólk hvatt til þess að nota orðið 'Daesh' yfir samtökin, fremur en hið betur þekkta ISIS.

„Ég tók eftir því núna um helgina að Frakkar nota orðið Daesh og raunar öll franska pressan. ISIS skráði náttúrulega lén hérna og þeir eru beinlínis að byggja undir nafnið sitt með .is endingunni,“ segir Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri ISNIC en ISNIC deildi grein á Twitter þar sem hin mismunandi heiti sem notuð hafa verið yfir ISIS eru útskýrð.

„Þetta er bara viðskiptaleg ógn fyrir okkur og hefur hitt okkur einu sinni illa fyrir,“ segir Jens og vísar þar til þess þegar ISIS skráði og notaði lén með endingunni .is fyrir rúmu ári síðan.

Tekin var ákvörðun um að loka fyrir lénið sem ISIS skráði á þeim grundvelli þess að rétthafa léns beri að ábyrgjast að notkun léns sé í samræmi við íslensk lög. Jens segir að með tístunum sé ISNIC að hvetja fólk til þess að nota hugtakið Daesh fremur en ISIS.

„Ég hef líka velt því fyrir mér afhverju vestræn pressa notar þeirra eigin orð. Það er heilmikil yfirlýsing fólkin í því að nota þetta hugtak ISIS. Ég ætla að steinhætta að nota þetta sjálfur. Líkt og segir í greininni sem við tístum mætti jafnvel líta á notkun hugtaksins ISIS sem stuðningsyfirlýsingu.“ 

Jens segir að ISNIC hafi ekki orðið vart við það að ISIS eða einhverjir tengdir samtökunum hafi reynt að skrá lén með lénsendingunni .is frá því að lokað var fyrir .is vefsíðu þeirra fyrir ári síðan en eigi að síður ógni þessi tenging ISNIC og .is léninu.

„Nei, við höfum ekki orðið vör við það en við erum alveg á nálum út af þessu. Þess vegna fannst mér gott að benda á þetta. Við erum í tilvistarkreppu út af þessu. Við höfum verulegar áhyggjur af þessu.“

Svo virðist reyndar sem að einhverjir hafi haldið að búið væri að taka yfir Twitter-reikning ISNIC en fyrirtækið var ekki lengi að eyða þeim misskilningi.


Tengdar fréttir

Óttuðust að IS myndi sækja í .is

Jens Pétur Jensen frá ISNIC og Aðalheiður Ámundadóttir frá IMMI ræddu um íslenska heimasíðu Íslamska ríkisins í Bítinu í morgun.

ISNIC lokar vef ISIS

ISNIC hefur ákveðið að loka lénum sem notuð voru fyrir vefsíðu yfirlýstra hryðjuverkasamtaka en þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×