Innlent

„Ekkert tengt þessum hryðjuverkasamtökum“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Samtökin nota skammstöfunina ISIS eða einfaldlega IS. Það er sama skammstöfun og í landsléni Íslands.
Samtökin nota skammstöfunina ISIS eða einfaldlega IS. Það er sama skammstöfun og í landsléni Íslands. Vísir / AP
„Ég hef nú bara voða lítið hugsað um það,“ segir Þórir Gísli Sigurðsson, eigandi veflénsins isis.is, aðspurður um tengsl lénsins við nafn samtakanna Íslamska ríkið, sem oft er skammstafað ISIS eða einfaldlega IS. „Ég er með allt aðrar hugmyndir fyrir þetta lén en eru í gangi núna.“

Þórir Gísli var í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær en þar sagðist hann ekki hafa fengið fyrirspurnir frá samtökunum um lénið. „Það hefur ekkert verið haft samband út af því,“ segir hann.

Samtökin Íslamska ríkið hélt úti vefsíðu á léninu khalifah.is auk þess að hýsa síðuna á íslenskum netþjónum. ISNIC, sem sér um lénaskráningar hér á landi, lokaði léninu og Advania, sem hýsti vefþjóna síðunnar, lokaði hýsingunni.

Þetta heldur þó ekki vöku fyrir Þóri Gísla sem er með allt aðrar hugmyndir um isis. „Þið vitið að þetta þýðir hásæti. Þetta er, fyrir mér, ekkert tengt þessum hryðjuverkasamtökum,“ segir hann og bætir við að isis.is hafi verið netverslun sem nú sé ekki í virk.

„Ég ætla ekki að láta þetta skemma neitt fyrir mér,“ segir hann og bætir við: „Þetta er hugsað í allt aðra hluti heldur en þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×