Erlent

Hnífjafnar kosningar framundan í Zagreb

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Lítill munur er á fylgi sitjandi stjórnar sósíaldemókrata og miðju- og vinstri flokka 
við hægri flokka í landinu.
Lítill munur er á fylgi sitjandi stjórnar sósíaldemókrata og miðju- og vinstri flokka við hægri flokka í landinu. vísir/epa
Sitjandi stjórn í Króatíu reynir nú hvað hún getur til að tryggja völd sín í landinu, en þingkosningar fara fram í dag. Nær enginn munur er á fylgi stjórnar og stjórnarandstöðu, en stefnumótun í málefni flóttamanna er í brennidepli í kosningabaráttunni.

Báðar fylkingar boða misjafnar aðferðir um hvernig takast eigi á við flóttamannavandann í landinu. Yfir 320 þúsund flóttamenn hafa lagt leið sína til landsins það sem af er þessu ári, en meirihluti þeirra heldur leið sinni áfram til Austurríkis, Þýskalands og annarra landa í vesturhluta Evrópu. Innanríkisráðherra Króatíu, Ranko Ostojic, segir kostnað við móttöku og skráningu flóttafólks á þessu ári nema tveimur milljónum kuna, eða rúmlega 37 milljónum íslenskra króna.  

Stál í stál

Tomislav Karamarko, leiðtogi lýðræðissambands Króatíu, forystuflokks stjórnarandstöðunnar, vill nota hermenn og reisa landamæragirðingar til að draga úr flóttamannastraumi til landsins. Hins vegar vill Zoran Milanovic, forsætisráðherra Króatíu, sem fer fyrir sósíaldemókrötum, vill beita mannúðlegri aðferðum og leggja þeim lið við að komast í gegnum landið.

Landið stendur jafnframt fyrir miklum efnahagsvanda en samdráttur hefur verið í hagtölum þeirra síðustu sex ár. Þá er atvinnuleysi 15,4 prósent, sem er það þriðja mesta í ríkjum Evrópusambandsins, á eftir Grikklandi og Spáni.

Hvorug fylkingin, sósíaldemókratar og hægri demókratar, er talin líkleg til að fá meirihluta þingsæta, sem eru 151. Önnur samsteypustjórn verður því líklega mynduð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×