Enski boltinn

Kalt mat Scholes á leikstíl Van Gaal: Engin sköpun, engin áhætta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Scholes ræðir málin við Ryan Giggs.
Paul Scholes ræðir málin við Ryan Giggs. Vísir/Getty
Paul Scholes, goðsögn í lifandi lífi hjá Manchester United, er ekki hrifinn af leikstíl liðsins undir stjórn Hollendingsins Louis van Gaal.

Manchester United liðið hefur ekki skorað í tveimur leikjum með stuttu millibili og datt út úr enska deildabikarnum á heimavelli á móti enska b-deildarliðinu Middlesbrough þar sem liðið skoraði ekki í 120 mínútur.

Scholes segir Louis van Gaal vera að þjálfa liðið frábærlega en að leikstíllinn sé ömurlegur.

„Það er engin sköpun í gangi og það er ekki tekin nein áhætta," sagði Paul Scholes í viðtali við BBC en Scholes lék 718 leiki fyrir Manchester United og varð ellefu sinnum enskur meistari með félaginu.

„Manchester United er svona lið sem þú vilt helst ekki mæta því þeir eru svo skipulagðir. Það lítur hinsvegar út fyrir að Van Gaal vilji ekki að menn séu að taka menn á og þetta er lið sem ég hefði líklega ekki notið mín í," sagði Paul Scholes.

Manchester United er í fjórða sæti deildarinnar eins og er og aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Manchester City. Liðið hefur aðeins skorað fimmtán deildarmörk á tímabilinu sem er það minnsta meðal efstu liðanna.

„Ég mætti á derby-leikinn á sunnudaginn var. Rooney var að hreyfa sig frábærlega en hann er að spila í liði þar sem enginn er tilbúinn að gefa á hann. Eftir tuttugu mínútur af slíku væru allir farnir að rífa í hár sitt," sagði Scholes.

„Ég spilaði með mörgum frábærum framherjum á sínum tíma en ég held að þeir hefði aldrei getað spilað í þessu liði. Þetta eru menn eins og Ruud van Nistelrooy, Andy Cole, Dwight Yorke, Teddy Sheringham. Það koma ekki fyrirgjafir og miðjumennirnir reyna heldur ekki hlaup inn í teig," sagði Scholes.


Tengdar fréttir

Ég vildi aldrei fara til Manchester

Angel di Maria var keyptur á metfé til Man. Utd frá Real Madrid en fann sig aldrei. Ein af ástæðunum er kannski sú að leikmaðurinn vildi ekki spila fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×