Enski boltinn

Xavi: Rooney þarf að færa sig á miðjuna til að lengja ferilinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wayne Rooney var ekki góður gegn Manchester City.
Wayne Rooney var ekki góður gegn Manchester City. vísir/getty
Xavi Hernández, fyrrverandi miðjumaður Barcelona og spænska landsliðsins, telur að Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United, þurfi að færa sig aftar á völlinn til að framlengja feril sinn um nokkur ár.

Rooney, sem varð þrítugur um síðustu helgi, er aðeins búinn að skora tvö mörk í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð og fékk mikla gagnrýni fyrir frammistöðu sína í borgarslagnum gegn Manchester City um síðustu helgi þar sem hann spilaði einn frammi og kom ekki skoti á markið.

„Wayne Rooney er leikmaður sem ég hef dáðst að í langan tíma. Hann er ótrúlegur leikmaður með svakalega mikla hæfileika,“ segir Xavi.

„Persónulega finnst mér hann hafa mikið fram að færa, en kannski er kominn tími á að hann aðlagist aðstæðum.“

„Menn komast á þann aldur þar sem ekki er lengur hægt að spila eins og þeir gerðu. Ekki er lengur hægt að hlaupa jafn mikið og áður. En gáfaðir fótboltamenn aðlagast að því og Rooney er svo sannarlega með mikinn fótboltaheila.“

„Kannski er kominn tími á nýjan framherja hjá Manchester United sem getur hlaupið í 90 mínútur. Rooney gæti áfram verið mjög hættulegur en aftar á vellinum þar sem hann nýtir sendingar sínar og yfirsýn.“

„Ef hann getur aðlagast getur hann spilað áfram í 5-6 ár,“ segir Xavi.


Tengdar fréttir

Einn sem stendur undir millinafni

Wayne Rooney fagnar þrítugsafmæli sínu í dag en enn sér ekki fyrir endi ferils þessa magnaða knattspyrnukappa. Hann mun leiða sína menn í Man­chester United í grannaslagnum gegn City á morgun.

Van Gaal: Rooney elskar þessa leiki

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, stendur þétt við bakið á fyrirliða sínum Wayne Rooney og telur að hann eigi eftir að reynast mikilvægur í nágrannaslagnum gegn City á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×