Fótbolti

Blatter: Rússlandskosningin ákveðin fyrirfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sepp Blatter og Vladimir Putin Rússlandsforseti.
Sepp Blatter og Vladimir Putin Rússlandsforseti. Vísir/Getty
Svisslendingurinn Sepp Blatter segir í ítarlegu viðtali við rússnesku fréttastofuna Tass að það hafi verið samkomulag þess efnis að HM 2018 yrði haldið í Rússlandi áður en kosning um keppnina fór fram.

Blatter var nýlega dæmdur í 90 daga bann af siðanefnd Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, og getur því ekki gegnt starfi sínu nú sem forseti sambandsins.

Bannið fékk hann fyrir greiðslu sem Michel Platini, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, fékk árið 2011 frá FIFA. Platini var einnig dæmdur í 90 daga bann en báðir neita sök.

Blatter var spurður í viðtalinu hvort að það hafi verið mistök að halda kosningu um HM 2018 og HM 2022 samtímis en Katar vann kosninguna um síðari keppinna.

„Innan hópsins var búið að ákveða að við myndum fara til Rússlands því HM hefur aldrei verið haldið í austurhluta Evrópu. Við myndum svo fara næst til Bandaríkjanna og því yrði HM haldið í tveimur voldugustu ríkjum heims.“

Blatter bætti því þó við að Katar hafi fengið HM 2022 þar sem að fjórir fulltrúar Evrópu hafi skipt um skoðun á síðustu stundu.

Útboðsferlið fyrir HM 2018 og HM 2022 er nú til rannsóknar hjá rannsóknarlögreglunni í Sviss en einnig er verið að rannsaka spillingu hjá FIFA í bandaríska dómsmálaráðuneytinu.

Blatter sagði meðal annars í viðtalinu að HM 2018 yrði aldrei tekið frá Rússlandi og að Platini hafi starfað gegn FIFA vegna öfundsýki og afbrýðissemi.

England var meðal þeirra landa sem sóttust eftir því að halda HM 2018 en forráðamenn sambandsins, sem eyddi háum fjárhæðum í kosningabaráttunna, segja að þeir muni skoða málið frekar í ljósi ummæla Blatter. Þá sagði talsmaður siðanefndar FIFA að ummæli Blatter væru einnig til skoðunar hjá nefndinni.


Tengdar fréttir

Blatter og Platini báðir búnir að áfrýja 90 daga banninu

Forseti FIFA Sepp Blatter og varaforsetinn Michel Platini voru báðir skikkaðir í 90 daga leyfi frá störfum sínum fyrir FIFA í gær en Siðanefnd sambandsins tók þessa ákvörðun í framhaldi af því að þeir sæta nú báðir rannsókn vegna spillingarmála.

Platini gefst ekki upp

Michel Platini ætlar í forsetaframboð hjá FIFA þó svo hann sé grunaður um spillingu.

Beckenbauer viðurkennir mistök

Franz Beckenbauer, sem bæði varð heimsmeistari með þýska landsliðinu sem fyrirliði og þjálfari, hefur viðurkennt mistök nefndar sem hann fór fyrir þegar Þjóðverjar sóttust efir því að fá að halda heimsmeistaramótið í fótbolta 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×