Fótbolti

Fleiri háttsettir menn hjá FIFA undir rannsókn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sepp Blatter er í straffi frá FIFA.
Sepp Blatter er í straffi frá FIFA. vísir/getty
FIFA-skandallinn ætlar engan enda að taka, en síðar í dag mun siðanefnd Alþjóðaknattspyrnusambandsins nafngreina fleiri háttsetta menn innan heimsfótboltans sem liggja undir grun fyrir spillingu.

Framkvæmdastjórn FIFA fundaði í Zürich í gær þar sem staðfest var að forsetakosningar sambandsins fara fram 26. febrúar og að Michel Platini, forseta UEFA, verður meinað að bjóða sig fram á meðan hann er í straffi.

Þar var einnig tilkynnt að síðar í dag verða nöfn fleiri forráðamanna FIFA sem liggja undir grun fyrir spillingu opinberuð.

„Nefndin mun segja frá rannsóknum á þessum einstaklingum seinni part miðvikudagsins 21. október eftir að búið er að láta þá vita,“ sagði siðanefndin í gær.

Sepp Blatter, forseti FIFA, og Michel Platini, forseti UEFA, voru báðir sendir í leyfi vegna misgjörða sinna og þá hefur Jack Warner, fyrrverandi varaforseti FIFA, verið bannaður frá knattspyrnu fyrir lífstíð.

Bandarísk yfirvöld eru enn að reyna fá hina forráðamenn FIFA sem handteknir voru í sumar framselda frá Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×