Íslenski boltinn

Bjarni: Kæmi mjög á óvart ef Þorsteinn yrði áfram í KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Þorsteinn Már Ragnarsson er að öllum líkindum á leið frá KR þegar samningur hans við félagið rennur út í haust.

Litlu mátti muna að Þorsteinn Már færi til Breiðabliks á miðju tímabili en hann hætti við á síðustu stundu og ákvað að klára tímabilið með KR.

„Það kæmi mér mjög á óvart ef Þorsteinn Már yrði áfram. Það var í raun ákveðið í sumar að hann myndi ekki framlengja samning sinn og það hefur í raun ekkert breyst,“ sagði Bjarni í samtali við Vísi í dag.

Bjarni segir að staða Danans Jacob Schoop sé í óvissu en hann er með samning sem gildir út árið. „Hann ætlar að athuga hvað er í boði fyrir hann erlendis en hann er opinn fyrir því að spila aftur með KR næsta sumar.“

Indriði Sigurðsson gaf það út í vor að hann myndi snúa aftur til Íslands eftir tímabilið í Noregi þar sem hann leikur með Viking. „Indriði er KR-ingur og við höfum oft heyrt í honum. Við vonumst til að hann verði með okkur á næsta ári en það mál er eins og önnur í vinnslu.“

KR-ingar eru nú komnir í frí áður en næsta undirbúningstímabil hefst en Bjarni sé ásamt stjórn félagsins að vinna í fleiri leikmannamálum. „Nú fer þessi vinna almennilega í gang og er ýmislegt í gangi sem ég get ekki tjáð mig um á þessu stigi. En vonandi verða sem fæstar breytingar á hópnum.“

Ekki náðist í Þorstein Má Ragnarsson við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×