Fótbolti

Freyr stefnir að föstu starfi hjá KSÍ | Tveggja ára pása frá félagsliðum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Freyr Alexandersson ætlar að einbeita sér að landsliðinu.
Freyr Alexandersson ætlar að einbeita sér að landsliðinu. vísir/vilhelm
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, tekur sér að öllum líkindum tveggja ára pásu frá því að þjálfa félagslið samhliða þjálfun landsliðsins.

Freyr hefur síðan hann tók við liðinu stýrt liði Leiknis ásamt Davíð Snorra Jónassyni, en saman komu þeir Leikni upp í efstu deild en féllu svo úr deildinni í vor.

Freyr og Davíð Snorri sögðu upp eftir lokaleikinn gegn Keflavík í deildinni og eru án starfs. Freyr stefnir ekki að því að taka við öðru liði í bráð.

"Ég geng út frá því að gera það ekki. Ég ætla að einbeita mér að því að vinna fyrir knattspyrnusambandið. Næsta ár er mjög þétt hjá kvennalandsliðinu og eftir það ætlum við okkur að vera komin í lokakeppni," sagði Freyr við Vísis á blaðamannafundi landsliðsins í dag.

"Mögulega verð ég í tveggja ára pásu frá félagsliðum. Við erum í viðræðum um hérna í KSÍ að ég geti einbeitt mér að því að vera hér 100 prósent. Það er fullt í gangi hjá KSÍ og nóg að gera. Við sáum til í lok vikunnar hvernig fer með mitt starf hjá knattspyrnusambandinu."

"Það er auðvitað margt sem mig langar að gera. Ég loka ekki á neitt, en samt sem áður vil ég bara ganga frá samningi hér hjá sambandinu og einbeita mér að því," sagði Freyr Alexandersson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×