Erlent

Búrkína Fasó vísað úr Afríkuráðinu

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Maður úr hópi mótmælenda gefst upp fyrir liðsmönnum lífvarðasveitarinnar.
Maður úr hópi mótmælenda gefst upp fyrir liðsmönnum lífvarðasveitarinnar. Nordicphotos/AFP
Búrkína Fasó Afríkuráðið hefur vísað Búrkína Fasó úr ráðinu eftir að hópur hershöfðingja úr röðum lífvarðasveitar forsetans tók völdin í Búrkína Fasó á miðvikudaginn, handtók forsetann og forsætisráðherrann og komu á herforingjastjórn sem fer með völd í landinu.

Gilbert Diendere hershöfðingi er leiðtogi herforingjastjórnarinnar en hann er bandamaður fyrrverandi forseta landsins, Blaise Compaore, sem hrökklaðist úr embætti í fyrra eftir miklar óeirðir í landinu.

Forsetakosningar voru áætlaðar 11. október en talið er að hershöfðingjarnir hafi tekið völdin vegna umdeildra kosningalaga sem banna einstaklingum sem tengdir eru Compaore að bjóða sig fram.

Fjöldi íbúa Búrkína Fasó hefur mótmælt valdaráninu og óeirðir brutust út í höfuðborginni Ouagadougou. Mótmælendur kveiktu í dekkjum og rusli á götum úti en liðsmenn úr lífvarðasveit forsetans brugðust við með því að skjóta upp í loftið til að dreifa mótmælendum. Þrír hafa látist í átökum á milli mótmælenda og lífvarðasveitarinnar og fjöldi fólks hefur verið handtekinn.

Margir mótmælendur hafa kallað eftir því að herinn skerist í leikinn en lífvarðasveit forsetans er sérdeild sem er óháð hernum og í eru um 1.300 liðsmenn. Frakkland, Bandaríkin og Afríkubandalagið hafa fordæmt valdaránið auk Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, sem hvetur herinn til að tryggja öryggi og réttindi þegna landsins.

Forseti Senegal, Macky Sall, og forseti Benín, Thomas Boni Yayi, komu til Búrkína Fasó í gær til að freista þess að semja um frið á milli deiluaðila. Eftir komu þeirra til landsins var sitjandi forseta landsins, Michel Kafando, sleppt úr haldi og herforingjastjórnin hefur lýst því yfir að hún sé opin fyrir viðræðum sem bendir til þess að farið sé að þiðna á milli deiluaðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×