Innlent

Ráðherranefnd um málefni flóttafólks og innflytjenda sett á fót

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fimm ráðherrar eiga fast sæti í nefndinni og aðrir ráðherrar munu sitja fundi hennar eftir því sem tilefni þykir til.
Fimm ráðherrar eiga fast sæti í nefndinni og aðrir ráðherrar munu sitja fundi hennar eftir því sem tilefni þykir til. vísir/gva
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun, að tillögu forsætisráðherra, að sett verði á fót ráðherranefnd um málefni flóttafólks og innflytjenda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra og utanríkisráðherra munu eiga fast sæti í nefndinni. Þá munu mennta- og menningarmálaráðherra og heilbrigðisráðherra taki sæti í nefndinni þegar fjallað er sérstaklega um málefni á þeirra ábyrgðarsviðum. Aðrir ráðherrar taka sæti á fundum nefndarinnar eftir því sem tilefni er til.

Nefndin mun taka til umfjöllunar stöðu mála, stefnumörkun og stjórnvaldsákvarðanir í málefnum flóttafólks, hælisleitenda og innflytjenda. Markmiðið er að samræma starf ráðuneyta og stofnana í umræddum málaflokkum og meta hvernig framlag Íslands nýtist best til að ná markmiðum um mannúðaraðstoð og aðstoð við flóttamenn, hælisleitendur og innflytjendur og samfélagsmál tengd málaflokknum.

Íslensk stjórnvöld hafa undanfarið haft til umfjöllunar málefni flóttafólks og hælisleitenda og m.a. unnið að undirbúningi móttöku kvótaflóttamanna og bættri umgjörð hælisleitenda. Það er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þar sem undirstrikað er að staðið verði að neyðar- og mannúðaraðstoð við bágstaddar þjóðir.

„Það var mikil og góð umræða um þetta mikilvæga málefni í ríkisstjórninni í morgun og ljóst að um er að ræða mál sem ráðherrar og ríkisstjórnin í heild tekur mjög alvarlega,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. „Vandinn er ekki nýtilkominn og við fjölluðum um þá miklu vinnu sem ráðuneyti og stofnanir hafa unnið á þessu sviði á síðustu misserum. Vinna við undirbúning fyrsta fundar ráðherranefndarinnar er hafin og ég gerir ráð fyrir að hægt verði að boða til fyrsta fundarins í þessari viku.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.